Málstofa um vernd uppljóstrara

Fyrirlestarasalur Þjóðminjasafns Íslands
Þriðjudaginn 29. september 2015
Fundarstjóri: Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnanswhistleblower-protection
Kl. 16.30-17.30

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála hjá Háskóla Íslands og Gagnsæi – samtök gegn spillingu blása til málstofu um vernd uppljóstrara í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands, þriðjudaginn 29. september nk.. kl. 16.30-17.30. Þar mun Paul Stephenson, fyrrum embættismaður breska dómsmálaráðuneytisins, halda erindi um mikilvægi löggjafar um vernd uppljóstrara. Hann hefur sérhæft sig í málefnum uppljóstrara eftir að hann lét af störfum hjá breska dómsmálaráðuneytinu árið 2009. Lögin um verndun uppljóstrara voru sett í Bretlandi árið 1999, en þau lög eru að sögn Stephensons, eitt helsta framlag Bretlands til þessara mála á alþjóðavísu. Paul Stephenson leiddi starf dómsmálaráðuneytisins á sviði varna gegn spillingu, sem formaður sendinefndar Breta hjá GRECO, spillingarvarnardeild Evrópuráðsins, sem Ísland er einnig aðili að.

Afar erfitt er að greina spillingu innan viðskiptalífsins sem og stjórnsýslu. Spilling er einskonar lokuð hringrás sem erfitt er að uppgötva fyrr en löngu eftir að hún er búin að valda skaða. Oft skortir á viðskiptaþekkingu, fjármála- og spillingarlæsi hjá eftirlitsaðilum til að greina viðvörunarmerkin.

Uppljóstrarar innan fyrirtækja og stofnana gegna mikilvægu hlutverki við að koma upplýsingum um misgerðir gegn almannahagsmunum á framfæri til almennings og eftirlitsaðila. Mörg ríki hafa nú þegar breytt lögum eða eru að vinna að lagabreytingum til verndar uppljóstrurum til að hvetja einstaklinga til að miðla upplýsingum um misgjörðir, því ef starfsmaður þess fyrirtækis sem upplýsingarnar varða missir í kjölfarið starf sitt og á jafnvel á hættu refsingu fyrir að brjóta þagnarskyldu, hefur það kælingaráhrif á miðlun upplýsinga sem þessa. Lagafrumvarp hefur ítrekað verið lagt fram á Alþingi um verndun uppljóstrara á Íslandi, sem ekki hefur fengið brautargengi þrátt fyrir alvarlegar ávirðingar GRECO til íslenskra stjórnvalda þar um.