Mikilvægi löggjafar um vernd uppljóstrara

Eftir Eddu Kristjánsdóttur og Guðrúnu Johnsen

Maður er nefndur Ad Bos. Fyrir u.þ.b. 15 árum vann hann fyrir verktakafyrirtæki í gatna- og vegagerð í heimalandi sínu, Hollandi. Morgun einn höfðu tveir plastpokar verið hengdir á hurðarhúninn heima hjá honum sem innihéldu afrit af bókhaldsgögnum vinnuveitanda hans. Gögnin sýndu að fyrirtækið var á kafi í víðtæku ólöglegu verðsamráði innan hollenska byggingariðnaðarins og Ad Bos sá, sem var, að þarna var verið að svindla á almenningi. Hann fór því með pokana til lögreglunnar og málið var rannsakað, fyrirtækið fór á hausinn og hollenska samkeppniseftirlitið hreinsaði til innan byggingariðnaðarins.

Umbun Ads fyrir að koma upp um svindlið var ekki aðeins atvinnumissir heldur varð hann sem brennimerktur maður: enginn annar vinnuveitandi vildi ráða hann til starfa. Hann var einnig lögsóttur og varð sjálfur gjaldþrota vegna þess og neyddist til að búa um árabil í hjólhýsi með eiginkonu sinni. Árið 2013, eftir 12 ára málaferli, sem náðu m.a. til mannréttindadómstóls Evrópu, var fallið frá málinu á hendur Ad og honum gefnar upp sakir, m.a. vegna þess samfélagslega ávinnings sem mál hans hafði haft í för með sér. Þingið hafði framkvæmt opinbera rannsókn á verðsamráðshneykslinu. Örlög Ad Bos höfðu einnig leitt til lagafrumvarps í hollenska þinginu um bætta vernd uppljóstrara. Slík vernd, nái hún fram að ganga, mun samt ekki má út öll árin sem hann mátti þola ofsóknir, gjaldþrot og beinlínis útlegð.

Auðvitað á ekki að refsa fólki fyrir að koma upp um glæpi eða miðla upplýsingum um misgjörðir. Eigi að síður á einstaklingur sem miðlar slíkum upplýsingum til eftirlitsaðila eða fjölmiðla það á hættu að missa vinnuna, viðurværi sitt, mannorð og jafnvel frelsi. Ef haft er í huga að uppljóstranir eru eitt öflugasta vopnið í baráttunni gegn spillingu, hvort sem er í einkageiranum, opinberri stjórnsýslu, eða á gráa svæðinu þar á milli, þarf engan að undra að spillingaröfl reyni allt sem í þeirra umtalsverða valdi stendur til að þagga niður í uppljóstrurum, útmála þá sem vandræðagripi og helst læsa þá inni svo örlög þeirra geti verið öðrum víti til varnaðar.

Í viðskiptalífinu, stjórnsýslu og stjórnmálum eru brot á reglum og lögum of oft látin afskiptalaus án rannsóknar eða koma einfaldlega ekki fram í dagsljósið. Vandinn við að upplýsa misgjörðir í stjórnsýslu og atvinnulífi er m.a. sá að athafnir þátttakenda á þeim vettvangi fara fram fyrir luktum dyrum. Rétt eins og sá sem býr yfir innherjaupplýsingum er í bestri aðstöðu til að nýta sér þær í eigin þágu og þar með misnota upplýsingarnar, er það einnig innherjinn sem er í bestri aðstöðu til að koma upp um slíka misnotkun meðal samstarfsfólks eða vinnuveitenda. En þar liggur hundurinn grafinn. Sem samfélag, skattgreiðendur og neytendur höfum öll hag af því að reglum sé framfylgt, en hvert og eitt okkar hefur afar lítinn hvata til að upplýsa um brot. Án verndar þarf sá sem kemur upp um misgjörðina að færa persónulegar fórnir til koma upplýsingum til þeirra sem eiga að geta sótt málið áfram og séð til þess að réttlætið sigri. Við hin njótum ávinnings af athöfnum uppljóstrarans, en sjálfur ber hann allan kostnaðinn. Þess vegna er mjög skiljanlegt að fólk veigri sér við því að blása í flautuna þegar það verður vitni að misgjörð á vinnustað eða innan félagsskapar sem það tilheyrir. Í litlu samfélagi fákeppni og frændsemi flækist málið enn frekar, eins og lesandinn getur sjálfur gert sér í hugarlund. Hér er á ferðinni skólabókardæmi um skekkju á milli ávinnings heildarinnar og fórnarkostnaðar einstaklingsins sem kemur honum til leiðar. Slíkar skekkjur má leiðrétta með lagasetningu. Gríðarlega mikilvægt er fyrir íslenskt samfélag, vinnustaði og heimili að frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara, sem bíður afgreiðslu Alþingis, verði að lögum.

Misnotkun á almannatrausti í eigin þágu – m.ö.o. „spilling“ – er undirrót margra stærstu vandamála er hrjá mannkynið um þessar mundir. Bestu samfélögin eru ekki þau sem þykjast vera óspillt; bestu samfélögin eru þau sem taka á spillingunni sinni og berjast stöðugt gegn henni. Hvert og eitt okkar ætti ekki að þurfa að taka það að sér að vera “Ad Bos í hjólhýsinu” eins og hann er ennþá kallaður í Hollandi, heldur ætti hvert og eitt okkar að taka þátt í að slá skjaldborg um næsta Ad Bos með því að tryggja vernd uppljóstrara.

Höfundar eru lögfræðingur og hagfræðingur og sitja í stjórn Gagnsæis, samtökum gegn spillingu EddaGuðrún