Annáll ársins 2015
Árið 2015 markar fyrsta starfsár Gagnsæis, samtaka gegn spillingu, en samtökin voru formlega stofnuð í lok árs 2014.
Markmið samtakanna á fyrsta starfsárinu voru m.a.
- Að knýja á um þær umbætur sem OECD, GRECO og TI hafa bent á að gera þurfi í íslensku lagaumhverfi til að efla varnir gegn spillingu
- Vitundarvakning, fræðsla og umræða meðal almennings um skilgreiningar spillingar, einkum í ljósi fólksfæðar og hagsmunaárekstra
- Að sækja um aðild sem Íslandsdeild Transparency International hreyfingarinnar, sem Íslandsdeild hennar.
Stjórn og stjórnarmenn samtakanna stóðu fyrir ýmsum kynningum á starfseminni, og samtökin fengu formlega samskiptastöðu við Transparency International sem er fyrsti liður í aðlögunarferli til að gerast Íslandsdeild hjá Transparency International, en aðildarferlið tekur 3-5 ár.
Stjórn Gagnsæis lítur á það sem megin hlutverk sitt að fjalla um og vekja athygli á spillingar- hvötum og hættum í opinberri stjórnsýslu og í viðskiptaumhverfinu almennt og hafa stjórnarmenn bent á þær og fjallað um málefnið í fjölmörgum greinum, sem birst hafa í fjölmiðlum og á heimasíðu samtakanna. Nokkur mál hafa komið upp á Íslandi á árinu, sem benda til þess að embættismenn og æðstu stjórnendur hafa brugðist og farið út fyrir skráðar og óskráðar siðareglur. Stjórnarmenn Gagnsæis hafa tekið þátt í þeirri umræðu á málefnalegan hátt, með því að rýna í einstök atvik eða atburðinn sjálfan og benda á þau alþjóðlegu viðmið sem eðlilegt er að taka tillit til þegar aðstæður eru greindar.
Gagnsæi stóð fyrir málstofu um vernd uppljóstrara í lok september og bauð Paul Stephenson fyrrum embættismanni hjá breska dómsmálaráðuneytinu að halda erindi, en hann hefur sérhæft sig í málefnum uppljóstrara.
Gagnsæi hefur sent inn umsagnir við lagafrumvörp og reglugerðir, sem varða gagnsæi í stjórnsýslu, siðferðileg viðmið o.fl. Stjórnarmaður Gagnsæis var tilnefndur hálfu samtakanna að beiðni Innanríkisráðuneytis í starfshóp um eftirfylgni við innleiðingu á samningum gegn spillingu og mútum, en starf hópsins átti m.a. að taka til samskipta við GRECO vegna alvarlegra athugasemda um sinnuleysi stjórnvalda við að innleiða tillögur og tilskipanir GRECO sem Ísland er aðili að, og eru samtök á vegum OECD til varnar spillingu.
Starfshópurinn hélt málþing um mútur í alþjóðaviðskiptum síðla hausts. Aðalfyrirlesari á málþinginu var Drago Kos frá Slóveníu, en hann leiðir vinnuhóp OECD um mútur. Þrír stjórnendur úr atvinnulífinu tóku þátt í pallborði að loknum fyrirlestrinum þar sem rætt var opinskátt um mútuþægni og mútugreiðslur.
Á þessum fundi komu fram ýmis athyglisverð sjónarmið. Einn stjórnandi stórfyrirtækis fjallaði m.a. um að þrátt fyrir góðan ásetning um að innleiða fyrirbyggjandi aðgerðir gegn spillingu, þá væri ákveðinn fælingarmáttur fólginn í því fyrir stórfyrirtæki að tengja sig neikvæðu orði eins og „spillingu“, þó um góða fyrirætlan væri að ræða.
Stjórn Gagnsæis hefur rætt þetta sjónarmið og komist að þeirri niðurstöðu að heppilegra sé að leggja meiri þunga og áherslu á orðið „heilindi“ (e: integrity) til að draga fram jákvæða hlið spillingarvarna og benda á að þær snúist ekki einungis um að fletta ofan af sökudólgum og sýna fram á brot, heldur efla menningu og hegðun innan atvinnulífs og stjórnsýslu sem minnkar spillingarhvata og dregur því úr hættum á spillingu til lengri tíma.
Stjórn Gagnsæis óskar landsmönnum öllum heilla og heilinda á nýju ári og hlakkar til að vinna að auknum heilindum í íslensku þjóðfélagi á komandi ári.