Spillingarvísitalan 2015 (CPI Corruption Perceptions Index 2015)

Í fréttatilkynningu frá Transparency International http://www.transparency.org/ um spillingarvísitölu ársins 2015 (“Corruption Perception Index” / CPI) kemur fram að spilling sé enn útbreidd en að jákvæðar blikur séu á lofti.

Haft er eftir formanni Transparency International, José Ugaz, að Spillingarvísitalan 2015 sýni greinilega að spilling sé útbreidd um allan heim, en að árið 2015 hafi almenningur einnig haldið út á stræti og torg til að mótmæla spillingu. Fólk víðsvegar um heiminn hafi sent sterk skilaboð til valdhafa sinna um að tími sé kominn til að uppræta meiriháttar spillingu.

Svo kölluð “meiriháttar spilling” er skilgreind sem misnotkun valds á æðstu stigum, þar sem fáir geta hagnast á kostnað margra og haft alvarlegar og útbreiddar afleiðingar er skaða jafnt einstaklinga sem heilu samfélögin.

Spillingarvísitala Transpareny International er byggð á áliti sérfræðinga sem og almennri skynjun á spillingu í opinberum stofnunum og stjórnsýslu. Þau lönd sem fá hæsta einkunn eiga það sameiginlegt að þar er stjórnsýsla opin og almenningur getur dregið stjórnendur til ábyrgðar. Lægstu einkunnir fá lönd þar sem mútur eru algengar, refsileysi ríkir gagnvart spillingu og opinberar stofnanir sinna ekki hlutverki sínu í þágu borgaranna.

Helstu niðurstöður CPI 2015

Spillingarvísitalan nær að þessu sinni yfir 168 lönd og hlutu 2/3 þeirra 50 stig eða færri. (Stigaskalinn nær frá 0, eða “mjög spillt”, upp í 100, eða “mjög lítið eða ekkert spillt” )

Danmörk lenti í efsta sæti og er því talin minnst spillta land heims annað árið í röð, en Norður Kórea og Sómalía lentu í neðstu sætunum með aðeins 8 stig hvort.

Efstu ríkin eiga það sameiginlegt að þar er fjölmiðlafrelsi; gott aðgengi að fjárlagaupplýsingum svo að almenningur viti hvaðan peningarnir koma og í hvað þeim er varið; sýnd heilindi í starfi þeirra sem fara með almennt vald; dómskerfi sem dregur fólk ekki í dilka eftir ríkidæmi eða fátækt og starfar ennfremur algjörlega sjálfstætt gagnvart löggjafar- og framkvæmdavaldinu. Löndin sem hafna neðst á listanum eiga það aftur á móti sameiginlegt að þar geisa oftar styrjaldir, stjórnskipan er veik, dómskerfið slakt og fjölmiðlar ósjálfstæðir.

Þau lönd sem hafa lækkað mest á undanförnum 4 árum eru Líbýa, Ástralía, Brasilía, Spánn og Tyrkland. Aftur á móti hafa Grikkland, Senegal og Bretland bætt sig mest.

Ísland

Ísland féll niður um eitt sæti frá árinu 2014 og lendir því í 13. sæti 2015, með alls 79 stig. Nágrannalöndin Danmörk, Finnland og Svíþjóð verma efstu sætin þrjú og Noregur er í 5. sæti. Á Norðurlöndunum skynjast því mest spilling á Íslandi.

Hér hefur orðið markverð breyting frá árunum 2005 og 2006, þegar Ísland var í 1. sæti listans, með 95-97 stig. Á árinu 2008 var Ísland komið í 7. sætið og 90 stiga múrinn fallinn. Síðast liðin 8 ár hefur leiðin legið niður á við og árið 2013 féll 80 stiga múrinn þegar Ísland lenti í 12. sæti, með aðeins 78 stig.

Aðferðafræði

Transparency International sækir upplýsingar sínar til allt að 12 mismunandi greiningarfyrirtækja og stofnana er sérhæfa sig í rannsóknum á stjórnarfari og stjórnunarvísum í löndum heims.

Hvað Ísland varðar voru notaðar 5 gagnauppsprettur og var einkunnagjöf þeirra: 87, 83, 65, 89 og 73. Staðalfrávik einkunnagjafa var því 10,14 en staðalskekkja 4,53. Það var Bertelsmann Foundation, SGI (Sustainable Governance Indicators) sem gaf einkunnina 65, en á heimasíðu þeirra má finna ítarlega greiningu á helstu stoðum stjórnkerfis Íslands, sjá hér: http://www.sgi-network.org/2015/Iceland/Quality_of_Democracy

Á hverju ári eru sérfræðingar úr háskólaumhverfi, viðskiptalífi og fjölmiðlum hvers lands beðnir um að svara spurningum um þætti sem endurspegla skynjun á spillingu í opinberri stjórnsýslu þess. Fyrir árið 2015 var spurning Bertelsmann Foundation eftirfarandi:

„Að hve miklu leyti er leitast við að koma í veg fyrir að opinberir embættismenn misnoti stöðu sína í eigin þágu?“

Spurningunni er ætlað að upplýsa á hvaða hátt ríki og samfélag kemur í veg fyrir að opinberir aðilar og stjórnmálamenn þiggi mútur (t.d. í formi greiða eða persónulegs ávinnings) og hvort sérstakir verkferlar og kerfi séu til staðar til að tryggja heilindi opinberra starfsmanna. Má þar m.a. nefna endurskoðun á rikisútgjöldum og eyðslu, reglur um fjármögnun stjórnmálaflokka og stjórnmálafólks, aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum, ábyrgð og fyrirsvar æðstu stjórnenda hins opinbera, reglur um hagsmunaárekstra, siðareglur, gagnsætt innkaupakerfi ríkisins og árangur saksóknara í að rannsaka einstök spillingarmál.

LAUNCH_DAY_CPI_2015_Heat_Map_EN