Spurningar og svör um spillingarvísitölu Transparency International.

Forsætisráðuneyti_sigurdurmar copyAð gefnu tilefni og vegna umræðu sem orðið hefur um spillingarvísitölu Transparency International, sem gefin var út 27. janúar s.l. birtum við hér með fyrirspurn frá upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar og svör okkar.

Til upplýsingar um samtökin Gagnsæi

Gagnsæi eru frjáls samtök sem stofnuð voru fyrir ári síðan.  Eitt af markmiðum samtakanna er að sækja um sem Íslandsdeild í alþjóðasamtökin Transparency International sem hefur á að skipa yfir 100 landsdeildir á heimsvísu, þ.m.t öll Norðurlöndin, ásamt Grænlandi.

Aðildarferlið er tiltölulega langt (á okkar mælikvarða)  3-5 ár,  en í apríl á síðasta ári fékk Gagnsæi svokallaðan “communication status” við samtökin, sem er fyrsta af þremur stigum aðildaferlisins og þýðir í raun að við fáum sent efni frá samtökunum, við getum átt samskipti við aðrar landsdeildir, fylgst með innra starfi o.þ.h.   Við fengum að að vita með smá fyrirvara, um niðurstöður hinnar árlegu útgáfu CPI, sem gaf okkur tækifæri að útbúa fréttatilkynningu, þar sem leitast var við að útskýra aðferðarfræði og niðurstöður vísitölunnar.

Það er mikilvægt að það komi fram að  Gagnsæi var á engan hátt þátttakandi í gagnaöflun, vinnslu, útgáfu sérfræðiálita eða öðru því sem viðkemur útreikningi vísitölunnar fyrir TI eða þær gagnaveitur (sources) sem notast var við í útreikningi vísitölunnar.

Eftirfarandi eru spurningar upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar og svör við þeim.

Spurning 1:   Hvernig er gögnum safnað hér á Íslandi? 

Svar 1:   Transparency International, safnar gögnum frá allt að 12 gagnaveitum, sem eru sjálfstæðar rannsóknarstofnanir eða deildir (World Bank) sem sérhæfa sig í rannsóknum á helstu megin stoðum stjórnkerfa landa, þ.m.t. heilindavísum og vörnum gegn spillingu.  Skv. upplýsingum TI voru notaðar 5 gagnaveitur  í útreikningi á vísitölu fyrir Ísland, Þær eru   World Economic Forum EOS 87 stig, World competitiveness Yearbook 83 stig, PRS International Country Risk guide 89 stig, IHS Global Insight, 73 og Bertelsmann Foundation, SGI 65 stig, sem að meðaltali gaf stigin 79,4 sem var heildarstigagjöf fyrir Ísland.

Spurning 2:   Er hægt að fá afrit af spurningarlista þeim sem liggur til grundvallar (hafi verið notast við spurningalista). 

Svar 2:   Við höfum einungis tiltæka þá spurningu sem Bertelsmann Foundation lagði til grundvallar og bað sérfræðinga hvers lands að leggja mat á.  Spurningin

Að hve miklu leyti er leitast við að koma í veg fyrir að opinberir embættismenn misnoti stöðu sína í eigin þágu?“  var ætlað að upplýsa á hvaða hátt ríki og samfélag kemur í veg fyrir að opinberir aðilar og stjórnmálamenn þiggi mútur (t.d. í formi greiða eða persónulegs ávinnings) og hvort sérstakir verkferlar og kerfi séu til staðar til að tryggja heilindi opinberra starfsmanna. Má þar m.a. nefna endurskoðun á rikisútgjöldum og eyðslu, reglur um fjármögnun stjórnmálaflokka og stjórnmálafólks, aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum, ábyrgð og fyrirsvar æðstu stjórnenda hins opinbera, reglur um hagsmunaárekstra, siðareglur, gagnsætt innkaupakerfi ríkisins og árangur saksóknara í að rannsaka einstök spillingarmál.

 Spurning 3:  Hverjum og hve mörgum var sendur slíkur spurningalisti? 

Svar 3:   Hver og ein stofnun notast við  sérfræðinga, úr háskólaumhverfinu, viðskiptalífinu og í sumum tilfellum blaðamenn innan hvers lands, auk eigin sérfræðinga, við höfum ekki upplýsingar um þennan lista.

Spurning 4:   Í grein ykkar er vísað í að hvað Ísland varðar hafi verið notaðar 5 gagnauppsprettur og einkunnagjöf þeirra hafi verið: 87, 83, 65, 89 og 73. Ég sé aðeins vísað í eina þeirra Bertelsmann Foundation, SGI (Sustainable Governance Indicators) sem gaf einkunnina lang lægstu einkunina 65.  

Svar 4:      Sjá svar 1

Um tímaramma:

Spurning 5:  Ef ég skil rétt þá var gerð könnun á vegum Transparency International árið 2008 en síðan ekki aftur fyrir en 2013? Eru einhverjar tölur til um tímabilið þarna á milli? 

Svar 5:   Transparency gefur út árlega vísitölu og sætisskipan, ítarlegar upplýsingar er að finna á heimasíðu www. transparency.org
Tímarammi Island TI

Spurning 6:  Í frétt Gagnsæis segir að leiðin hafi legið niður á við frá 2008 (hefði reyndar haldið að það væri frá því 2005-2006 þegar Ísland var í 1. sæti listans) en eins og kom fram í spurningu 2. þá sjást engar tölur fyrir tímann frá 2008 til 2013. Ef þær tölur eru ekki til – hvað segir að þetta hafi verið samfeld lækkun, en ekki t.d. lækkun frá 2012? (Þetta er ekki sett fram til að vera með útúrsnúninga en mér þykir áhugavert að sjá nákvæmlega hvernig ferlið þróast.) 

Svar 6:  CPI vísitalan mælir hvernig sérfræðingar meta stig spillingar  og spillingarhættu  í hverju landi, í opinberri stjórnsýslu.    Sérfræðingar koma úr háskólaumhverfi, viðskiptalífi og fjölmiðlum.  Greiningarfyrirtækin gefa út leiðbeiningar og skýringar á því hvernig mati skuli háttað m.a. til að koma í veg fyrir að dægurmál eða hreppamál (fylkismál)  liti mat sérfræðinga um of.    Að stærstum hluta fangar vísitalan skoðanir sérfræðinga með viðskiptalegan bakgrunn og/eða hátt menntunarstig.  TI segir að í mörgum löndum haldist skynjun almennings og sérfræðinga í hendur.

Stigagjöf frá hverjum og einum getur verið mismunandi, m.a. vegna mismunandi álitsgjafa og aðkomu þeirra og sýn að stjórnkerfi landanna.  Það þykir styrkja niðurstöður að með áliti mismunandi sérfræðinga og stjórnenda úr viðskiptalífi fáist góð nálgun fyrir stig spillingar.   Meðalfrávik fyrir CPI árið 2015 er 3,4  og álítur CPI að skekkjumörk á lokastigum lands gætu fallið innan þessa bils.  Breyting hærri eða lægri en 4 þykir vera vísbending um breytingu  á skynjaðri spillingu innan lands, en þetta frávik var yfir 4 í tilfelli Íslands.

Lönd sem ná toppi listans hafa yfirleitt áralanga sögu um stöðugleika í hagrænu, pólitísku og félagslegu tilliti með sterka hefð fyrir opinni umræðu um almannahag og frjálsa fjölmiðlun.    Þessi lönd hafa skapað almennan og sameiginlegan skilning á því að heilindi og fyrirsvar (ábyrgð) eru nauðsynleg forsenda heilbrigðs stjórnkerfis.  Þó þessi atriði koma ekki í veg fyrir spillingu þá skapa þau leið til að lágmarka og uppgötva spillt atferli með fyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir viðkomandi.

Auk þess að reiða sig á óháða álitsaðila og gögn sem eru yfirfarin með tilliti til aðferðarfræði og gildismats, gerir TI sjálft könnun á skynjun fólks í löndum í gegnum alþjóðlega skoðanakönnun á meðal almennings sem kallast the Global Corruption Barometer.  (Ísland hefur ekki verið í þeirri könnun enn sem komið er)

Annað:

Spurning 7:  Er eitthvað sem skýrir af hverju einkun Bertelsmann Foundation, SGI (Sustainable Governance Indicators) er svona miklu lægri en annara? 

Svar 7:      Vísa í svar 2 þar sem spurningin og hverju henni er ætlað að svara, sem gefur e.t.v. verri niðurstöðu en  önnur greiningarfyrirtæki takast á við t.d. samkeppnishæfni landsins o.þ.h.

Að lokum:  Þiggur Gagnsæi einhverja þóknun frá Transparency International eða er greidd einhver þóknun þangað? 

Svar:  Að lokum, Gagnsæi þiggur enga þóknun frá TI og greiðir enga þóknun til þeirra.  Samtökin eru fjármögnuð einungis af félagsgjöldum, sem nýtt eru til fræðslu og kynningar á málefnum um spillingavarnir,   en starfsemi stjórnar er unnin í sjálfboðavinnu.