Um hagsmuni – Annáll Gagnsæis 2016
Það sem einkenndi árið 2016 helst með skírskotun til þeirra baráttumála sem Gagnsæi stendur fyrir má e.t.v. setja undir einn hatt, einn samnefnara: „hagsmunir og hæfi“.
Í hverju stórmálinu á fætur öðru hafa afhjúpast hagsmunaárekstrar, skortur á hagsmunaskráningu, álitamál um hæfi eða vanhæfi opinberra embættismanna og ráðamanna. Í þessum málum hefur ekki aðeins skort á gagnsæi upplýsinga um tengsl, hagsmuni og eftirfylgni með þeim, heldur hefur einnig komið í ljós að verulega skortir á skipulag og vandaða stjórnsýslu í kringum meðferð og birtingu upplýsinga sem eiga erindi við almenning. Afhjúpun þessar mála hefur sýnt að enn vantar talsvert á almennan skilning á mikilvægi þess að veita almenningi greiðan aðgang að góðum og áreiðanlegum upplýsingum um starfsemi hins opinbera. Það verður aldrei of oft sagt að traust á opinberum stofnunum veltur á heilindum og heiðarlegum starfsháttum bæði í ásýnd og reynd. Almennt traust gerir almennt ekki greinarmun á ásýnd eða reynd.
Ásýnd hagsmunaárekstra má skilgreina þannig að vegna tengsla viðkomandi við aðila máls, þrátt fyrir að gerðar hafi verið ráðstafanir um armslengd frá málinu og viðkomandi hefur gætt þess að standa fyrir utan ákvarðanir, þá geti hinn almenni borgari litið svo á að hagsmunaárekstrar séu til staðar. Ásýnd hagsmunaárekstra getur haft jafn skaðlegar afleiðingar og raunverulegir hagsmunir. Hagsmunaárekstrar, hvort heldur í reynd eða ásýnd, gera opinberan embættismann því vanhæfan til þess að taka ákvarðanir um viðkomandi mál.
Það að almenningur upplifði á árinu ítrekað og stórvægilegt vantraust gagnvart embættum, stofnunum hins opinbera og ekki síst helstu ráðamönnum, er alvarlegasta afleiðing hagsmunaárekstra og skorts á aðgengi að góðum og áreiðanlegum upplýsingum.
Þó að hausar hafi fokið, þá virðist ekki ríkja fullnægjandi sannfæring meðal almennings fyrir því að embættismenn og æðstu ráðamenn skilji eða taki alvarlega þau áhrif sem hagsmunaárekstrar hafa, hvort heldur um er að ræða hagsmunaárekstur í reynd eða ásýnd.
Þegar hagsmunaskráning alþingismanna árið 2016 er rýnd, virðist blasa við að mjög margir alþingismenn svari spurningum af einskærri léttúð; líti á skráninguna sem tollyfirlýsingu sem best er að svara með nei, nei, nei, nei, til að forðast að lenda í veseni á landamærunum. Fjölmargir hafa ekki enn sinnt þessari skráningarskyldu, en svo eru aðrir sem virðast hafa vandað sig vel og greint frá margvíslegum hagsmunum, sem er mikil framför frá hagsmunaskráningu fyrri ára.
Fyrrverandi forseti svaraði einmitt: „nei, nei, nei, nei, nei“ spurður um aflandsreikninga eiginkonu hans, sem svo reyndust vera til staðar, fleiri en einn.
Í Wintris málinu, sagði fyrrverandi forsætisráðherra að það hefði nú verið aldeilis fordæmalaus hagsmunaskráning, ef hann hefði greint frá eignum maka hans í aflandsfélagi, félagi sem m.a. var með kröfur á íslensku bankana. Ísland er aðili að GRECO, samtökum ríkja um baráttu gegn spillingu. Ísland hefur skuldbundið sig til að hlíta tilmælum GRECO, sem hefur ítrekað beint því til íslenskra stjórnvalda að útvíkka hagsmunaskráningu alþingismanna til maka og jafnvel fjölskyldu, og bæta inn fjárhæðum eigna og skulda umfram það sem eðlilegt íbúðarhúsnæði felur í sér. Því var m.a. heitið í kjölfar afsagnar forsætisráðherra s.l. vor að hagsmunaskráning yrði endurskoðuð fyrir áramót. Það gekk ekki eftir.
Fjármálaráðherra er í nánum fjölskyldutengslum við mörg stærstu fyrirtæki og fjárfesta landsins. Þar má sjá augljós hagsmunatengsl. Þessir fjárfestar hafa m.a. verið að kaupa eignir ríkisins, sem ráðherrann hefur yfirumsjón með. Ásýnd hagsmunaárekstra vegna þessara tengsla skapar tortryggni, og viðheldur undirliggjandi og vaxandi vantrausti á æðstu stjórnvöld og stofnanir ríkisins. Þrátt fyrir að ráðherrann mótmæli kröftuglega allri aðkomu eða vitneskju um að frændur hans séu að kaupa eignir ríkisins í lokuðu ferli, þá skorta mótmæli ráðherrans trúverðugleika, vegna þess að ásýndin um rík hagsmunatengsl, þ.e. hin nánu fjölskyldutengsl, getur vart verið augljósari. Bankasýslunni er ætlað að starfa í armslengdarfjarlægð frá ráðherranum. Í ljósi þessara nánu tengsla við kaupendur, þá er orðspor ráðherrans í mikilli hættu þegar stjórn Bankasýslunnar og opinberir embættismenn taka ákvarðanir sem augljóslega setja ráðherrann í erfiða stöðu. Engan þarf að undra að einkavæðing opinberra eigna sem tryggja ættingjum og venslafólki sjálfs fjármálaráðherra landsins milljarða hagnað ýtir undir tortryggni og vantrú á kerfinu, allra síst þegar fyrirheit um að eignir ríkisins yrðu seldar í opnu og gagnsæju ferli eru höfð að engu.
Í Illugamálinu þar sem menntamálaráðherra var í fjárhagslegum hagsmunatengslum við aðila, sem hann síðan bauð í viðskiptaferð til Kína urðu hagsmunaárekstrar bæði í ásýnd og reynd. Í þessu máli gekk fráfarandi forsætisráðherra svo langt að fara í „orðaleik“ með túlkun sinni á anda siðareglna með því að segja að „siðareglur fjalli ekkert um leigusala“.
Í dæmunum hér að framan þar sem æðstu ráðamenn þjóðarinnar eiga hlut að máli, kemur skýrt fram að þrátt fyrir að reglur um hagsmunaskráningu og siðareglur séu til staðar, þá kjósa þeir oft á tíðum að túlka þessar reglur þröngt, sértækt eða bókstaflega. Hinn „venjulegi almenni borgari“ virðist hins vegar hafa annan skilning á anda laga og reglna og upplifir þess vegna ákveðið brot á trausti og trúnaði. Togstreita um túlkun reglna af þessu tagi skapar gjá milli almennings og ráðamanna í lýðræðisríki. Afsagnir ráðamanna í kjölfarið virka sem ákveðin friðþæging, ef ráðamenn halda uppteknum hætti með sambærilegri hegðun og léttúð gagnvart alvarleika máls.
Það er fagnaðarefni að Hæstiréttur hafi ákveðið að opinbera hagsmunaskráningar, í kjölfar alvarlegra mála þar sem ásýnd æðstu dómara varð tortryggileg vegna hagsmunatengingar við mál sem þeir voru að dæma í.
Eftir höfðinu dansa limirnir. Ef opinber stjórnsýsla og æðstu stjórnvöld heykjast á að uppfylla reglur og lög sem hafa það að markmiði að draga úr spillingarhættum, þá skapast vont fordæmi. Fyrirtæki í atvinnulífinu kunna að hafa minni hvata til að beina því til starfsmanna um að gera greinarmun á persónulegum hagsmunum og hagsmunum fyrirtækisin sem þeir starfa hjá.
Fyrir kosningar í haust, óskaði Gagnsæi eftir því að framboðsflokkar svöruðu spurningum er varðaði hagsmunaskráningu alþingismanna og ráðherra og hvort þeir vildu beita sér fyrir því að tilmælum GRECO um að gera skráninguna ítarlegri og útvíkka eignaskráningu til maka. Af þeim sjö flokkum sem komust inn á þing svöruðu fimm afdráttarlaust játandi, en aðeins fráfarandi stjórnarflokkar svöruðu ekki. Enn ríkir óvissa um samsetningu á nýrri ríkisstjórn, en vænta má þess að ný ríkisstjórn muni beita sér fyrir endurskoðun og útvíkkun á hagsmunaskráningu alþingismanna á komandi ári.
Gleðilegt nýtt ár og þökkum samfylgdina á árinu sem er að líða
Jenný Stefanía Jensdóttir,
Formaður Gagnsæis, samtaka gegn spillingu