Spillingarvísitalan 2016

Í fréttatilkynningu frá Transparency International http://www.transparency.org/ um spillingarvísitölu ársins 2016 („Corruption Perception Index” / CPI) er lögð áhersla á nauðsyn þess að rjúfa vítahring spillingar og ójöfnuðar og hvatt til árvekni vegna uppgangs svokallaðs popúlisma í stjórnmálum margra landa.

Haft er eftir formanni Transparency International, José Ugaz, að á árinu 2016 hafi verið sýnt fram á að kerfisbundin spilling og ójöfnuður séu sprottin af sama meiði og leiði hvor tveggja til almennrar óánægju með stjórnmálaflokka og skapi frjólendi fyrir populísma í stjórnmálum. Þá hafi afhjúpun Panama skjalanna sýnt fram á hversu auðvelt og algengt það er meðal auðugra og valdamikilla aðila að nýta sér dulið alþjóðlegt fjármálakerfi til að auðgast á kostnað almennings.

„Í löndum þar sem leiðtogar kenndir við populisma og einræðishneigð hafa komist til valda, sést oft hvernig lýðræðinu hrakar og það flæðir undan siðmenntuðu samfélagi vegna skerðingar fjölmiðlafrelsis og veikingar á dómskerfinu. Aðeins þar sem ríkir tjáningarfrelsi, gagnsæi í stjórnkerfinu og sterkar lýðræðislegar stofnanir, geta samfélög og fjölmiðlar veitt valdhöfum aðhald og átt árangurs að vænta í baráttunni gegn spillingu.”

Þá hvetur José Ugaz til aðkallandi breytinga er vega megi upp á móti aukinnar misskiptingar auðs og valds, t.d. með því að binda endi á refsileysi við spillingu, draga þá valdameiri til ábyrgðar og hafa þannig raunverleg áhrif á ákvarðanir er snerta daglegt líf hvers og eins.

Svokölluð „meiriháttar spilling” er skilgreind sem misnotkun valds á æðstu stigum, þar sem þeir fáu geta hagnast á kostnað hinna mörgu. Meiriháttar spilling getur haft alvarlegar og útbreiddar afleiðingar er skaða jafnt einstaklinga sem og heilu samfélögin.

Spillingarvísitala Transparency International er byggð á áliti sérfræðinga sem og almennri skynjun á spillingu í opinberum stofnunum og stjórnsýslu. Ekkert land getur talist laust við spillingu en ýmis sameiginleg einkenni í opinberri stjórnskipun má finna í löndum sem hljóta flest stig, s.s. fjölmiðlafrelsi, borgaralegt frjálslyndi og sjálfstætt dómskerfi. Einkennandi fyrir löndin sem eru neðst á listanum er refsileysi við spillingu, veik stjórnskipan og veikar stofnanir, sem sinna ekki hlutverki sínu í þágu borgaranna.

Helstu niðurstöður CPI 2016

Spillingarvísitalan nær að þessu sinni yfir 176 lönd og hlutu 69% þeirra 50 stig eða færri. (Stigaskalinn nær frá 0, þar sem spilling er talin mjög algeng, upp í 100, þar sem spilling er talin lítil sem engin.)

Danmörk og Nýja Sjáland eru efst með 90 stig, þar á eftir er Finnland (89 stig) og Svíþjóð (88 stig). Tíunda árið í röð er Sómalía með verstu niðurstöðuna, aðeins 10 stig og þar á eftir Suður Súdan, Norður Kórea og Sýrland.

Efstu ríkin eiga það sameiginlegt að þar er fjölmiðlafrelsi, gott aðgengi að fjárlagaupplýsingum svo að almenningur viti hvaðan peningarnir koma og í hvað þeim er varið, sýnd heilindi í starfi þeirra sem fara með opinbert vald, dómskerfi sem dregur fólk ekki í dilka eftir ríkidæmi eða fátækt og starfar sjálfstætt gagnvart löggjafar- og framkvæmdavaldinu. Löndin sem hafna neðst á listanum eiga það aftur á móti sameiginlegt að þar geisa oftar styrjaldir, stjórnskipan er veik, dómskerfið slakt og fjölmiðlar ósjálfstæðir.

Nánar tiltekið þá er hér listi yfir efstu og neðstu lönd:

Spillingarvisitala_efst_nedst

Ísland

Ísland fellur niður um eitt sæti frá árinu 2015 frá 13. sæti og lendir því í 14. sæti árið 2016, með alls 78 stig. Norðurlöndin verma efstu sætin sjö sætin ásamt Nýja Sjálandi, Sviss og Singapore Á Norðurlöndunum skynjast því mest spilling á Íslandi en Noregur kemur næst í 7. sæti.

spilling2016ICETaflan hér til hliðar sýnir breytingu sem orðið hefur á sætaröðun og stigafjölda Íslands s.l. 10 ár. Fram kemur að árið 2006 var Ísland í 1. sæti, sem var af mörgum álitið umdeilt og talið endurspegla slaka aðferðarfræði við að mæla spillingu frekar en að mælingin fangaði siðlega og góða stjórnskipan á Íslandi árið 2006. Árið 2010 kom út Rannsóknarskýrsla Alþingis, sem m.a. fjallaði í sérstöku hefti um siðferði og starfshætti í tengslum við fall íslensku bankanna. Sjá má umtalsvert stökk niður á við í sætaröðun árið 2010, sem e.t.v. má tengja við efni og afhjúpun skýrslunnar.

Aðferðafræði

Transparency International sækir upplýsingar sínar til allt að 13 mismunandi greiningarfyrirtækja og gagnaveitna sem sérhæfa sig í rannsóknum á stjórnarfari og stjórnunarvísum í löndum heims.

Hvað Ísland varðar voru notaðar 6 gagnaveitur og var einkunnargjöf þeirra: 85, 83, 80, 61, 72 og 85. Meðaltalið er 77,6, sem er endanleg stigagjöf. Það var Bertelsmann Foundation, SGI (Sustainable Governance Indicators) sem gaf einkunnina 61, en á heimasíðu þeirrar stofnunar má finna ítarlega greiningu á helstu stoðum stjórnkerfis Íslands, sjá hér.

Árlega eru sérfræðingar úr háskólaumhverfi, viðskiptalífi og fjölmiðlum hvers lands beðnir um að svara spurningum um þætti sem endurspegla skynjun á spillingu í opinberri stjórnsýslu þess. Fyrir árið 2016 var spurning Bertelsmann Foundation svo hljóðandi:

 „Að hvað miklu leyti er leitast við að koma í veg fyrir að opinberir embættismenn misnoti stöðu sína í eigin þágu?“

Spurningunni er ætlað að upplýsa um hvernig ríki og samfélag fái komið í veg fyrir að opinberir aðilar og stjórnmálamenn þiggi mútur (t.d. í formi greiða eða persónulegs ávinnings) og hvort sérstakir verkferlar og kerfi séu til staðar til að tryggja heilindi opinberra starfsmanna. Má þar m.a. nefna endurskoðun á rikisútgjöldum og eyðslu, reglur um fjármögnun stjórnmálaflokka og stjórnmálafólks, aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum, ábyrgð og fyrirsvar æðstu stjórnenda hins opinbera, reglur um hagsmunaárekstra, siðareglur, gagnsætt innkaupakerfi ríkisins og árangur saksóknara í að rannsaka einstök spillingarmál.