Dómur í Hæstarétti um vanhæfi dómara

Það er mikill léttir fyrir okkar samfélag að þeir einstaklingar sem láta sig spillingarmál varða og berjast opinberlega gegn spillingu með stjórnarsetu í félagasamtökum, sem leitast við að uppfræða almenning um birtingarmyndir spillingar, geti verið sérfróðir dómarar í máli sem lýtur m.a. að spillingu.

Gagnsæi, samtök gegn spillingu tengist Hæstaréttadómi, sem féll í Marple málinu svokallaða. Dómur Héraðsdóms var ómerktur vegna ummæla sérhæfðs meðdómara og afstöðu til stjórnenda bankanna sem spannar yfir langt tímabil og þykja sýna eindregna afstöðu til stjórnenda bankanna, þar með talið ákærðu. Sérhæfði meðdómarinn, Dr. Ásgeir B Torfason lektor við Háskóla Íslands er stjórnarmaður í Gagnsæi. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni meðdómarans vegna þessa og vísaði málinu aftur í hérað til málsmeðferðar á ný.

Í dómnum kemur orðrétt fram:

“Þátttaka meðdómsmannsins í almennu félagi eins og Gagnsæi samtökum gegn spillingu, getur ein og sér ekki leitt til þess að hann teljist vanhæfur til meðferðar máls“.

Nú þegar Hæstaréttardómur er fallin er ekki hægt að draga í efa óhlutdrægni og fagmennsku fólks sem berst gegn spillingu á opinberum vettvangi.

Gagnsæi tekur undir þau megin sjónarmið að hæfi dómara á öllum dómsstigum verði að vera hafin yfir allan vafa, hagsmunaskráning eigna og skulda dómara ásamt maka og venslatengsl og önnur hugsanleg tengsl við aðila máls á að liggja frammi við upphaf máls, og þá gildir einu hvort um sýnd eða raunveruleg tengsl er að ræða. Meginmarkmiðið er að fullvissa um hlutlægni dómara ríki á öllum dómsstigum.