Nýr formaður og samvinna við fyrirtæki og stofnanir

Áhersla á samvinnu við fyrirtæki og stofnanir um varnir gegn spillingu.
Jón Ólafsson nýr formaður Gagnsæis.

Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands tók við formennsku Gagnsæis, félags gegn spillingu á aðalfundi félagsins sem haldinn var í maí. Jón hefur verið í stjórn Gagnsæis frá því að félagið var stofnað í desember 2014. Í fundinum reifaði Jón þau mál sem hann vill setja á oddinn í starfinu á næstunni.

Gagnsæi mun í fyrsta lagi leitast við að ná betra sambandi við félagsmenn og virkja þá til þátttöku í starfinu, í öðru lagi efla vitundarvakningu í samfélaginu um spillingu og spillingarhættur með markvissu námskeiðahaldi í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Meðal þess sem er á döfinni er námskeið hjá Endurmenntunarstofnun um Almannatraust og spillingu. Í þriðja lagið mun félagið vinna að vel völdum málum sem varða spillingarvarnir, svo sem að brýna fyrir þingmönnum mikilvægi þess að lög séu sett um verndunn uppljóstrara, halda uppi gagnrýninni samræðu um opinbera innkaupastefnu og fleira.

Gagnsæi hefur frá upphafi stefnt að því að verða Íslandsdeild alþjóðasamtakanna Transparency International og hóf aðildarferli skömmu eftir stofnun. Stefnt er að því að félagið fái viðurkenningu sem „Landsdeild í mótun“ á þessu ári, en af fulri aðild getur þá orðið á næsta eða þarnæsta ári. Aðild að alþjóðasamtökunum setur félaginu engar skorður í starfsemi sinni, en felur í sér umtalsverðan faglegan stuðning og tengslanet við sambærileg félög víða um heim.

Starf Gagnsæis byggir á þeirri forsendu að í flóknu viðskipta- og stjórnsýsluumhverfi samtímans sé afar mikilvægt að atvinnulífið og opinberir aðilar séu stöðugt á varðbergi gagnvart spillingu, skilji spillingarhættur og ráði yfir þeim verkfærum sem nauðsynleg eru til að koma í veg fyrir spillingu. Markmið Gagnsæis er að efla skilning á þessum þáttum og berjast gegn spillingu með því móti.

Auk Jóns í stjórninni eru Hallgrímur Óskarsson, varaformaður, Jenný Stefanía Jensdóttir gjaldkeri, Edda Kristjánsdóttir ritari, Ásgeir Brynjar Torfason, Guðrún Johnsen og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir meðstjórnendur.