Framboð til stjórnar Gagnsæis

Aðalfundur Gagnsæis er haldinn á morgun, fimmtudaginn 17. desember klukkan 16:00.

Á dagskrá fundar er kosning í stjórn félagsins. Í framboði eru:

Guðrún Johnsen 

Guðrún á að baki um 20 ára feril sem háskólakennari við HÍ, HR, og Oslóarháskóla og rannsakandi á sviði fjármála og efnahagsmála hjá alþjóðlegum stofnunum. Hún hefur lokið doktorsprófi í hagfræði frá ENS – École Normale Superieure í Frakklandi og meistaragráðum í bæði tölfræði og hagnýtri hagfræði frá University of Michigan í Ann Arbor, þar sem hún sérhæfði sig í atvinnuvegahagfræði og fjármálahagfræði. Frá 2009-2010 starfaði Guðrún hjá Rannsóknarnefnd Alþingis, en eftir hana liggja margar greinar, bókarkaflar og bók um fjármálakreppuna miklu, þjóðhags -og eindarvarúð efnahagsstjórnunar, hvatakerfi, lögsóknir gegn stjórnendum hlutafélaga, stjórnarhætti og fjármál fyrirtækja. Eftir bankahrunið kom hún að endurreisn íslenska bankakerfisins, sem varaformaður stjórnar Arion banka í tæplega átta ár. Frá 2014 hefur Guðrún varið frítíma sínum m.a. í uppfræðslu og vitundarvakningu meðal almennings um áhrif spillingar í viðskiptalífi og stjórnmálum. Hún er einn stofnanda og var fyrsti formaður Gagnsæis – samtaka gegn spillingu. Guðrún hefur setið í stjórn Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna frá því í ágúst 2019 fyrir hönd VR.

Edda Kristjánsdóttir

J.D., lögfræði, New York University School of Law, 1998.

Doktorsnám í þjóðarétti, Amsterdam háskóla síðan 2010.

Edda er Hafnfirðingur að uppruna en hefur búið og starfað erlendis síðan 1992, aðallega í New York og Hollandi.

Hún hóf lögfræðiferil sinn á lögmannsstofu í New York en fékk áhuga á þjóðarétti og fluttist til Hollands, þar sem hún var aðstoðarmaður dómara hjá Alþjóðadómstólnum í Haag og fulltrúi hjá Alþjóðagerðardómnum.

Edda hefur einkum sérhæft sig í regluverki fyrir fjöldakröfur fórnarlamba mannréttindabrota.

Síðustu ár hefur hún starfað við kennslu og rannsóknir hjá þjóðaréttardeild Amsterdam háskóla, þar sem hún hafði umsjón með gerð gagnagrunns fyrir Oxford University Press, um beitingu þjóðaréttar í landsrétti í yfir 70 löndum.

Í gegnum árin hefur Edda lært að spilling er oftast ekki bara undirrót mannréttindabrota heldur stendur hún einnig víða í vegi fyrir réttlæti og umbótum og grefur jafnvel um sig innan alþjóðlegra hjálpar- og þróunarstofnana.

Halldór Auðar Svansson

B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og MPM í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

Frv. borgarfulltrúi og formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.

Starfar nú sem notendafulltrúi geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Hefur áður starfað við hugbúnaðargerð m.a. hjá Kaupþingi (síðar Arion banka) og Hagstofu Íslands.

Halldór situr jafnframt í stjórn Geðhjálpar og Snarrótarinnar.

Geir Guðmundsson

Geir er stúdent frá MR og hefur lokið prófi í verkfræði frá HÍ auk viðbótarnáms og rannsóknavinnu við Tækniháskólann í Karlsruhe, Þýskalandi (nú KIT)

Geir hefur starfað sem verkfræðingur og verkefnistjóri á sviði nýsköpunar og tækniþróunar undanfarin 30 ár á fjölmögrum sviðum eins og hugbúnaðarþróun, orkumálum, hönnun stoðtækja, heilbrigðistækni, sjálfvirki, umhverfismálum, veiðarfæraþróun, ráðgjafar til sprotafyrirtækja, gróðurhúsatækniþróunar, stýri- og mælitækni, framleiðslutækni o.fl.

Undanfarin 13 ár hefur hann unnið sem verkefnistjóri á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og 10 ár þar á undan á Iðntæknistofnun. Á þeim árum hefur hann stjórnað fjölmörgum rannsóknar- og þróunarverkefnum, studdum að innlendum og erlendum samkeppnisjóðum.

Geir er ein af stofnendum og fyrrum formaður Stjórnarskrárfélagsins sem berst fyrir endurbótum á stjórnskipan Íslands og auknu lýðræði og borgararéttindum þ.a.m. auknu gagnsæi í stjórnsýslu. Auk þess hefur hann gengt trúnaðarstörfum fyrir Verkfræðingafélag Íslands, setið í nefndum á vegum hins opinbera og veit stjórnvöldum ráðgjöf á svið orkumála, gengt stöðu trúnaðarmanns á vinnustað og setið í kjarasamninganefnd VFÍ við ríkið.

Geir hefur verið félagi í Gagnsæi frá stofnun og setið í stjórn frá 2019 sem gjaldkeri.

Halldór Ó Zoega

Halldór er stúdent frá Menntaskólanum í Kópavogi, hef lokið varðskipadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík, er flugmaður, verkfræðingur frá Háskólanum í Álaborg og er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá HÍ.

Frá því að hann auk Stýrimannaskólanum hef hann af og til starfað sem skipstjórnarmaður og vann í fjögur ár að sjávarútvegsmálum fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands, m.a. sem verkefnastjóri á Grænhöfðaeyjum og í Namibíu. Þá var hann forstöðumaður matvælaeftirlits Fiskistofu um langa hríð, og starfaði sem fjármálastjóri Félagsvísindasviðs HÍ og Keilis. Halldór hefurunnið sem ráðgjafi í sjávarútvegsmálum á Íslandi auk þess að sinna ráðgjafastörfum í þróunarmálum á Sri Lanka, í Namibíu og í Mósambík.

Síðustu ár hefur Halldór starfað sem deildarstjóri mannvirkjadeildar á Mannvirkja- og leiðsögusviði Samgöngustofu, þar sem hann hefur verið fulltrúi Íslands í High Level Steering Group for Governance of the Digital Maritime Systems and Services, fulltrúi National Competent Authority gagnvart EMSA varðandi SafeSeaNet, LRIT og EMSWE (European National Single Window environment), og er fulltrúi Íslands varðandi LOCODES gagnvart The United Nations Economic Commission for Europe.

Halldór hefur verið félagi í Gagnsæi frá stofnun, 2015.

Ágústa Ýr Þorbergsdóttir

Stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í Þjóðarétti frá University of Kent í Canterbury í Bretlandi. Ágústa starfaði um árabil hjá Uppbyggingarsjóði EFTA í Brussel en sjóðurinn rekur m.a. samstarfsverkefni með Berlínarskrifstofu Transparency International.

Ágústa starfar sem ráðgjafi í orku- og loftslagsmálum og fjármögnun verkefna í nýsköpun og endunrnýjanlegri orku.

Ágústa situr í stjórn Minningarsjóðs Brynju Bragadóttur, í stjórn foreldrafélags Ölduselsskóla og er fulltrúi foreldrafélaga í Íbúaráði Breiðholts.

Engilbert Guðmundsson

Ráðgjafi utanríkisráðuneytisins um þróunarmál og þróunarsamvinnu. Frá 2011 til 2016 var hann framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, en áður en hann tók við því starfi var hann um skeið ráðgjafi og deildarstjóri hjá friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í Sierra Leone. Frá 1998 til 2010 starfaði hann hjá Alþjóðabankanum, fyrstu 8 árin sem yfirmaður samvinnuverkefna þróunarbanka og síðan í 4 ár sem umdæmisstjóri bankans í Sierra Leone. Frá 1991 til 1998 var hann starfsmaður Norræna þróunarsjóðsins í Helsinki, fyrst sem verkefnastjóri en síðar aðstoðarforstjóri sjóðsins. Þar áður starfaði hann í Tansaníu fyrir dönsku þróunarsamvinnustofnunina, Danida, í 5 ár sem verkenastjóri.

Áður en hann hóf störf við þróunarsamvinnu var hann kennari og aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskólann Vesturlands á Akranesi, sem og bæjarfulltrúi á Akranesi.

Engilbert er með BS og MS graður í viðskiptafræði og hagfræði frá Copenhagen Business School. Hann stundaði einnig framhaldsnám í þróunarhagfræði við University of East Anglía og nám í stjórnun fyrir yfirmenn hjá Alþjóaðbankanum í Harvard Business School.