Samtaka gegn spillingu

Alþjóða­stofn­anir hafa lýst því yfir og rann­sóknir sýna með óyggj­andi hætti að spill­ing er ill­víg mein­semd sem grefur undan grund­vall­ar­rétt­ind­um, tæki­færum og lífs­gæðum fólks og heil­brigði sam­fé­laga hvar­vetna í heim­in­um. Ísland er engin und­an­tekn­ing frá því. 

Spill­ing vegur að lýð­ræð­inu, mann­rétt­indum og rétt­ar­rík­inu. Hún leiðir til mis­mun­un­ar, hamlar efna­hags­legri þró­un, skerðir lífs­kjör og eykur ójöfn­uð. Spill­ing veldur umhverf­is­spjöllum og meng­un, stuðlar að sóun auð­linda og órétt­látri skipt­ingu arðs og síð­ast en ekki síst grefur hún undan heil­brigðum við­skipta­hátt­um. Hún skekkir sam­keppni og skaðar fyr­ir­tæki, starfs­fólk og neyt­endur og bitnar mest á þeim sem minnst vald og áhrif hafa, verst standa og eru fátæk­ast­ir.

Spill­ing er mis­beit­ing valds í þágu sér­hags­muna og hún er alltaf ógn við hags­muni almenn­ings því að mik­il­vægar ákvarð­anir eru teknar á grund­velli sér­hags­muna og án til­lits til áhrifa þeirra á sam­fé­lagið í heild.

Berj­umst saman gegn spill­ingu

Spill­ing fylgir ekki flokkslín­um. Til að verja rétt­indi okk­ar, hags­muni og sam­fé­lag gegn spill­ingu þurfum við að vinna sam­an, burt­séð frá hvar í flokki við stöndum og hverjum við greiðum atkvæði í kosn­ing­um. Við verðum að vernda og styrkja það sem best gagn­ast í þeirri bar­áttu.

Virk ábyrgð þeirra sem treyst hefur verið fyrir opin­beru valdi er for­senda þess að spill­ingu verði haldið í skefj­um. Spill­ing þrífst og dafnar best þar sem ráða­menn kom­ast upp með að mis­fara með vald, fara ekki að leik­reglum og bregð­ast trausti almenn­ings. Við verðum þess vegna að gera afdrátt­ar­lausar og skýrar kröfur um ábyrgð vald­hafa í stjórn­mál­um, stjórn­kerfi og við­skipta­lífi og fylgja þeim fast eftir þegar til­efni er til.

Gagn­sæi (e. tran­sparency) við með­ferð valds, tján­ing­ar­frelsið og rétt­ur­inn til upp­lýs­inga, eru öflug vopn í bar­áttu gegn spill­ingu. Spilltir vald­hafar ótt­ast fátt meira en fjöl­miðla, sem eru óháðir sér­hags­mun­um, rann­sókn­ar­blaða­menn og upp­ljóstr­ara og reyna ávallt að þagga niður í þeim með öllum til­tækum ráð­um. Við verðum því að kunna að meta gríð­ar­lega mik­il­vægt fram­lag þeirra til sam­fé­lags­ins, skilja þá miklu áhættu sem þeir taka, virða hug­rekki þeirra, styðja þá í orði og verki og verja fyrir óeðli­legum þrýst­ingi, ógn­unum og hefnd­ar­að­gerðum spilltra vald­hafa í stjórn­mál­um, stjórn­kerfi og við­skipta­lífi.

Öfl­ug­ar, skil­virkar og óháðar eft­ir­lits­stofn­an­ir, sem fylgj­ast með að lögum og reglum sé fylgt og sjálf­stæðir og óhlut­drægir dóm­stólar gegna gríð­ar­lega mik­il­vægu hlut­verki við að verja sam­fé­lag okkar gegn spill­ingu.

Spill­ing virðir engin landa­mæri. Þess vegna hafa verið gerðir fjöl­þjóð­legir samn­ingar um skyldur ríkja til að vinna gegn spill­ingu og hafa virkt eft­ir­lit með því að fólk og fyr­ir­tæki beiti ekki spilltum aðferðum og ekki bara í eigin landi, heldur líka í öðrum lönd­um. Ísland hefur und­ir­geng­ist samn­inga og skyldur á vett­vangi Sam­ein­uðu þjóð­anna, Evr­ópu­ráðs­ins og Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­innar (OECD). Við þurfum að fylgj­ast mjög vel með að íslensk stjórn­völd standi við þær skuld­bind­ing­ar, í verki en ekki bara í orði.

Það er mikið áhyggju­efni að Evr­ópu­ráðið og OECD skuli nýlega hafa fundið sig knúin til að gagn­rýna íslensk stjórn­völd harð­lega fyrir áhuga- og fram­taks­leysi við að gera nauð­syn­legar ráð­stafnir til að vinna gegn spill­ingu. Það er líka mjög mikið áhyggju­efni að Ísland skuli fá sífellt verri nið­ur­stöður í alþjóð­legum mæl­ingum á spill­ingu.

Leggðu lið í bar­átt­unni gegn spill­ingu

Ef þú vilt leggja lið í bar­átt­unni gegn spill­ingu á Íslandi og í heim­inum öllum hvetjum við þig til að kynna þér stefnu og starf alþjóða­sam­tak­anna Tran­sparency International (TI).

Sam­tökin voru stofnuð árið 1992 og hafa um langa hríð verið ein stærstu alþjóð­legu sam­tökin sem vinna að heil­indum í stjórn­mál­um, stjórn­sýslu og við­skipta­lífi hvar­vetna í heim­in­um. Sam­tökin eru sjálf­stæð og óháð stjórn­völdum og eru ekki rekin til að skila hagn­aði. Þau starfa í meira en 100 löndum og berj­ast gegn spill­ingu og því mikla órétt­læti og margs konar sam­fé­lags­lega skaða sem hún veld­ur.

Íslands­deild TI er nú að taka til starfa. Með því að ger­ast félagi í henni og/eða með því að styðja deild­ina með fjár­fram­lagi leggur þú þitt af mörkum í bar­átt­unni gegn spill­ingu á Íslandi og um allan heim. Upp­lýs­ingar um hvernig má ger­ast félagi í Íslands­deild TI og/eða styrkja deild­ina má nálg­ast á heima­síð­unni (www.tran­sparency.is). Þar eru einnig upp­lýs­ingar um hvernig er hægt að hafa sam­band við deild­ina og fram­kvæmda­stjóra henn­ar.

Verum sam­taka í bar­áttu gegn spill­ingu.

Guð­rún Johnsen, for­maður Íslands­deildar TI

Árni Múli Jón­as­son, fram­kvæmda­stjóri Íslands­deildar TI

Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum