Um siðareglur

Althingi_Jenny copyPistill: Jenný Stefanía Jensdóttir, formaður stjórnar Gagnsæis | Á dögunum sendi GRECO (Group of states against corruption)stjórnvöldum á Íslandi harðort bréf, vegna þess að stjórnvöld höfðu í engu farið eftir  tilmælum  um úrbætur í tíu liðum, sem beint var til stjórnvalda árið 2013 og vörðuðu alþingi, alþingismenn og dómskerfið.  Fyrstu fjögur tilmælin fjölluðu siðareglur fyrir alþingismenn, hagsmunaskráningu þeirra, eftirfylgni með hagsmunaskráningu og viðbrögð við hagsmunaárekstrum.  GRECO tiltók sérstaklega að framfylgd þessara tillagna væru til þess fallnar að auka traust almennings á alþingi og störfum þess.

Möguleikar og markmið – málþing

Þess vegna var það vel við hæfi að Siðfræðistofnun Íslands hélt hádegismálstofu þann 12. maí s.l. undir yfirskriftinni:  Siðareglur ráðherra og alþingismanna: Möguleikar og markmið.  Fundurinn var vel sóttur og mættu fjölmargir; alþingismenn, fyrrverandi ráðherrar, nemendur og áhugafólk um málefnið.

Traust er lykilatriði

Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Siðfræðistofnun, velti upp spurningunni hvort siðareglur geti hjálpað ráðherrum og þingmönnum að endurheimta glatað traust. Henry lagði áherslu á að siðareglur sem slíkar væru ekki alltaf æskilegar alls staðar, en taldi þingmenn og alþingismenn þurfa slíkar reglur. Traust sé eitt af lykilhugtökum siðfræðinnar og siðareglur hefðu einnig það hlutverk að vera leiðarljós – sem yki skilning fólks á því starfi sem viðkomandi gegnir, og hvers vegna það skuli unnið á ákveðin hátt. Forvirknisáhrif siðareglna væru gífurlega mikilvæg, því þau áhrif stuðla að aukni trausti, sem þarf að vera brúin á milli almennings og stjórnmálamanna. Það er réttur almennings að spyrja stjórnmálamenn, hvers vegna ákvarðanir eru teknar um tiltekin málefni, og sýni þeir skæting og hroka, munu þeir uppskera sama frá almenningi.

Stjórnarskrá þarf að fjalla um hagsmuni og hæfi alþingismanna

Björg Thorarensen lagaprófessor fjallaði um hæfisreglur þingmanna og ráðherra og skýrði lagalega hlið málsins. Björg dróg í efa að stjórnarskráin heimilaði að setja hömlur á alþingismenn, við að fjalla um mál eða greiða atkvæði, þó til væri óskráð meginregla um sérstakt hæfi, sem Umboðsmaður Alþingis taldi að Innanríkisráðherra hefði brotið í „Lekamálinu“.  Björg telur að bæta þurfi í stjórnarskrá ákvæði um að alþingismenn taki ekki þátt í málum sem varða hagsmuni þeirra sjálfra og benti á að 50. grein nýju stjórnarskrárinnar frá Stjórnlagaráði tæki einmitt á málum er varða hagsmunaskráningu og hæfi alþingsmanna.  Reglur um hæfi og hagsmuni ráðherra sem fara með framkvæmdavaldið, séu þær sömu og gildi í stjórnsýslunni. Björg nefndi einnig að almenningur sinnti eftirlitshlutverki sínu vel, varðandi ýmis mál og tiltók makrílkvótafrumvarpið sem staðfestingu á því að íslenskir kjósendur sætta sig ekki lengur við að alþingismenn taki ákvarðanir sem snerta þá eða fyrirtæki þeirra fjárhagslega.

Aftur á byrjunarreit

Jón Ólafsson prófessor, fjallaði um setningu og tilgang siðareglna fyrir ráðherra og starfsmenn Stjórnarráðsins, undir yfirskriftinni „Aftur á byrjunarreit“, en Jón var formaður nefndar um Siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni sem skipuð var 2010 og starfaði til 2013. Jón taldi upp þrjú megin markmið siðareglna; að þær eru viðmið fyrir alla þá sem vilja vinna störf sín vel, siðareglur séu settar í samvinnu við þá sem þær varða, og að ljóst sé hvernig eigi að nota reglurnar.  Jón sagði samhæfingarnefndina hafa mótað siðareglur á þeim forsendum að þær væru forvirkar og hefðu leiðsagnargildi, og til þess ætlaðar að koma í veg fyrir slysin frekar en að bregaðst við eftir að slysin hafa orðið. Jón telur nýlegar yfirlýsingar forsætisráðherra og fjármálaráðherra um siðareglur afhjúpa skilningsskort, en í umræðum á Alþingi 27. apríl lét sá fyrrnefndi í það skína að siðareglur þyrftu að tiltaka nákvæmlega þau atriði sem þær giltu um til að hægt væri að beita þeim; sá síðarnefndi hæddist að siðareglum blaðamanna sem hann sagði kostulegar og illa til þess fallnar að grípa nokkurn fyrir brot.  Jón ræddi síðan um nýleg mál; Lekamálið og málefni Illuga Gunnarssonar og tengsl hans við orkufyrirtæki og taldi ljóst að í báðum málum mætti benda á siðareglur sem ráðherrarnir hefðu ekki virt.

Ekki benda á mig …..

Loks hófust fyrirspurnir og  tóku m.a. ýmsir alþingismenn til máls, þar á meðal Brynjar Nielsson, sem var á öndverðri skoðun við alla fyrirlesara og taldi að siðareglur gætu þvert á móti verið skaðlegar fyrir alþingismenn. Hvar ætti að setja mörkin um hæfi, spurði hann og lagði að jöfnu almennar aðgerðir til niðurfellingu skulda, og sértækar ákvarðanir um úthlutun kvóta til handa örfáum einstaklingum. Ragnheiður Ríkharðsdóttir taldi að Sjálfstæðisflokknum vegið í máli Jóns, og nefndi mál í fyrri ríkisstjórn þar sem tveir ráðherrar brutu beinlínis lög, hvar þeir stæðu í sambandi við siðareglur. Jón sagði að erfitt væri að úttala sig um dómsmál. Þau þyrftu ekki að varða siðareglur neitt, til dæmis þegar látið er reyna á heimildir eða umboð. Þar getur reynst mikilvægt fyrir stjórnsýsluna að fá dóm til að skýra mál. Þess vegna sé ekki hægt að draga neinar ályktanir almennt um að siðferðileg viðmið séu virt að vettugi þótt dómar falli, þótt svo geti verið í einstökum tilfellum.

Hliðaverkun siðareglna

Það var jákvætt að heyra að niðurstaða fyrirlesara voru allar á þann veg að alþingismenn þyrftu að hafa siðareglur, enda er leitun að þjóðþingum um víða veröld, sem ekki starfa eftir siðareglum.  Á sama hátt er ljóst að umræðan um siðareglur þarf að halda áfram, svo skilningur alþingismanna  dýpki  á margþættu gildi siðareglna, en meginmarkmið þeirra  að ekki sé talað um aukið traust, sem er mikilvægasta hliðarverkun siðareglna.